Upplýsingar til kjósenda

Hverjir voru kjörnir á Stjórnlagaþing?

Eftirtaldir aðilar náðu kjöri á Stjórnlagaþing en samkvæmt ákvörðun Hæstiréttar frá 25. janúar 2011 er kosningin ógild:

Andres Magnússon læknir

Ari Teitsson bóndi

Arnfríður Guðmundsdóttir prófessor

Ástrós Gunnlaugsdóttir nemi,stjórnmálafræðingur

Dögg Harðardóttir deildarstjóri

Eiríkur Bergmann Einarsson dósent í stjórnmálafræði

Erlingur Sigurðarson fv. forstöðumaður Húss skáldsins og kennari við MA

Freyja Haraldsdóttir framkvæmdastjóri, nemi

Gísli Tryggvason talsmaður neytenda

Guðmundur Gunnarsson formaður Rafiðnaðarsambands Íslands

Illugi Jökulsson blaðamaður

Inga Lind Karlsdóttir fjölmiðlamaður, háskólanemi

Katrín Fjelsted læknir

Katrín Oddsdóttir lögfræðingur

Lýður Árnason læknir, kvikmyndagerðamaður

Ómar Þorfinnur Ragnarsson fjölmiðlamaður

Pawel Bartoszek stærðfræðingur

Pétur Gunnlaugson lögmaður,útvarpsmaður

Salvör Nordal forstöðumaður Siðfræðistofnunar HÍ

Silja Bára Ómarsdóttir alþjóðastjórnmálafræðingur, aðjúnkt við HÍ

Vilhjálmur Þorsteinsson stjórnarformaður CCP

Þorkell Helgason stærðfræðingur

Þorvaldur Gylfason prófessor

Þórhildur Þorleifsdóttir leikstjóri

Örn Bárður Jónsson sóknarprestur

Kosningin

Kosið var til Stjórnlagaþingsins 27. nóvember 2010 og var landið eitt kjördæmi. 83.531 kjósandi greiddi atkvæði í kosningunni eða 35,95% kjósenda. Rúmlega 1.100 atkvæði voru ógild.

Kosningakerfið var nýmæli hér á landi

Kosningakerfið sem stuðst var við í Stjórnlagaþingskosningunum er nýmæli hér á landi en það hefur verið notað víða um heim. Í lögum um Stjórnlagaþing er höfð hliðsjón af kosningakerfinu í Skotlandi. Kjósandinn fer með eitt atkvæði og kosningakerfið sér til þess að vægi atkvæðisins nýtist eins vel og mögulegt er.

Nokkrir mikilvægir punktar um kosningaaðferðina

Hver kjósandi hafði aðeins eitt atkvæði (ekki 25).

Ef efsti frambjóðandi á atkvæði kjósanda kemst inn á ríflegu fylgi færist tilsvarandi vannýttur hluti atkvæðisins til þess sem næst er raðað. Hann getur þá hugsanlega komist inn á því atkvæðisbroti.

Ef sá sem efst er raðað nær á hinn bóginn ekki kjöri sakir lítils fylgis færist allt atkvæðið til þess sem er valinn að öðru vali.

Þetta heldur svo áfram koll af kolli niður eftir kjörseðlinum. Sé kjósandinn svo óheppinn að enginn af þeim sem hann raðar á seðilinn nær kjöri fellur atkvæðið dautt niður.

Þeir sem vilja að atkvæði sitt komi að lokum einhverjum góðum frambjóðanda að gagni ættu því að raða sem flestum á seðilinn. Ekki er gefið færi á að raða fleiri en 25, en sú takmörkun hefur ekkert með það að gera að 25 sitja Stjórnlagaþingi.

Á hinn bóginn er atkvæðið fullgilt hvort sem einn er valinn í efstu línu, 25 eða allt þar á milli.

Kynning frambjóðenda á vefmiðlum

Auk kynningar á frambjóðendum á kosning.is gátu frambjóðendur sett inn kynningar um sig á dv.is, svipan.is, wikipedia.com og á facebook.com/stjornlagathing.

Kynningar á frambjóðendum á Rás 1

Mánudagskvöldið 22. nóvember hófust kynningar á frambjóðendum til Stjórnlagaþings á Rás 1. Alls voru rúmlega 50 kynningarþættir fluttir daglega til 26. nóvember. www.ruv.is

Kynning kosninga til Stjórnlagaþings á vefmiðlum

Auk kynningar á kosning.is settu flestir vefmiðlar upp sérstakar síður um kosningarnar .

Atkvæðatalning með tölvuskanna

Talning atkvæða fór fram með tölvuskanna og var sett upp umfangsmikið tölvukerfi af þessu tilefni. Notaður var breskur hugbúnaður aðlagaður að íslenskri kosningalöggjöf og kröfum um greiningu og útreikninga vegna kosninga til Stjórnlagaþings. Öllum atkvæðum á landinu var safnað saman og þau talin í Laugardalshöll.

Fyrir frambjóðendur

RÚV kynnti frambjóðendur

RÚV flutti kynningar á frambjóðendum til Stjórnlagaþings frá 22. nóvember til 26. nóvember á Rás 1. Jafnframt var hægt að hlusta á hvern og einn frambjóðanda á vefnum www.ruv.is Alls urðu þættirnir á fimmta tug og um klukkustunda langir, með 10-12 frambjóðendum í senn.

Frambjóðendur til Stjórnlagaþings minntir á upplýsingaskyldu

Ríkisendurskoðun vekur athygli frambjóðenda til Stjórnlagaþings á því að þeim ber lögum samkvæmt að skila stofnuninni upplýsingum um tekjur og kostnað vegna kosningabaráttu sinnar. Skilafrestur er til 28. febrúar 2011. Þar skal greint frá öllum framlögum og útgjöldum í samræmi við almennar reikningsskilareglur. Fari kostnaður frambjóðanda af kosningabaráttu eða framlög til hans vegna hennar ekki fram úr 400 þúsund krónum skal hann einungis skila skriflegri yfirlýsingu fyrir sama tímamark og að framan greinir.Kostnaður hvers frambjóðanda vegna kosningabaráttu að hámarki nema 2 milljónum króna.

Húsnæði skrifstofu undirbúningsnefndar Stjórnlagaþings

Húsnæði skrifstofu undirbúningsnefndar Stjórnlagaþings er að Ofanleiti 2, 5. hæð (fyrrum húsnæði Háskólans í Reykjavík.

Frambjóðendatölfræði

Þegar gluggað er í lista frambjóðenda til Stjórnlagaþings kom ýmislegt áhugavert í ljós, karlar voru 364 og konur 159. Meðalaldur allra frambjóðenda var 47 ár og sá sami hjá körlum og konum. Elsti karlinn var áttræður og sá yngsti 19 ára. Elsta konan var 66 ára og sú yngsta 22 ára. Frambjóðendur komu úr öllum starfsstéttum, en fjölmennasti hópurinn var í námi eða 45 frambjóðendur og næst fjölmennasti hópurinn stundaði kennslu eða 44 og þar af buðu 7 prófessorar. 32 framkvæmdastjórar eða forstjórar sig fram, 28 lögmenn/lögfræðingar, 16 viðskipta-eða hagfræðingar, 15 verkefnastjórar, 13 ráðgjafar, 12 blaða-eða fjölmiðlamenn, 11 verkfræðingar, 10 arkitektar, 10 læknar, 10 stjórnmálafræðingar, 6 bændur, 3 prestar og 5 skráðu sig atvinnulausa. Að auki buðu fjöldi annarra starfsstétta sig fram. Um 78% frambjóðenda bjuggu á höfuðborgarsvæðinu og 22 prósent utan höfuðborgarsvæðisins (en um þriðjungur landsmanna býr þar og því hallaði aðeins á landsbyggðina). Þá voru sjö frambjóðendur búsettir erlendis.