Spurningar og svör

Hvað er Stjórnlagaþing?

Í lögum frá Alþingi nr. 90/2010 um Stjórnlagaþing er gert ráð fyrir að sérstakt Stjórnlagaþing komi saman í febrúar 2011 til að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Samkvæmt lögunum á þingið að standa í tvo til fjóra mánuði. Stjórnlagaþingið skal skipað minnst 25 og mest 31 þjóðkjörnum fulltrúa sem kosnir skulu persónukosningu og er landið eitt kjördæmi við kosninguna. Stjórnlagaþinginu er ætlað að undirbúa frumvarp að endurbættri stjórnarskrá og hafa til hliðsjónar við þá vinnu niðurstöður Þjóðfundar 2010. Frumvarp Stjórnlagaþingsins verður að því loknu sent Alþingi til meðferðar.

Hversu margir buðu sig fram til Stjórnlagaþings?

Frambjóðendur til Stjórnlagaþings voru alls 522. Kjörgengir til Stjórnlagaþings voru allir sem kjörgengir eru við kosningar til Alþingis. Forseti Íslands, alþingismenn, varamenn þeirra og nefndarmenn í stjórnlaganefnd og undirbúningsnefnd voru þó ekki kjörgengir. 25 náðu kjöri til Stjórnlagaþings en samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var kosningin dæmd ógild.

Hvar get ég nálgast ákvörðun Hæstaréttar um að ógilda kosninguna?

Hægt er að nálgast ákvörðunin á vef Hæstaréttar haestirettur.is.

Hvenær fór kosning til Stjórnlagaþings fram?

Framboðum til Stjórnlagaþings var skilað inn fyrir 18. október. Kosning til Stjórnlagaþings fór fram 27.nóvember 2010 og var landið eitt kjördæmi við kosninguna. Frekari upplýsingar um kosningafyrirkomulagið má finna á vefsíðu dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins.

Hvernig verður kynningu á sjálfu Stjórnlagaþinginu háttað?

Starfsemi Stjórnlagaþingsins verður kynnt með víðtækum hætti í samfélaginu, bæði fyrir og eftir kosningar á þingið. Það er forsenda þess að hægt verði að stuðla að skoðanaskiptum og virkja áhuga í samfélaginu á því sem fram fer á þinginu.Þannig skal Stjórnlagaþing markvisst lýsa eftir tillögum og erindum frá einstaklingum, hagsmunasamtökum, félögum og öðrum og taka þau til meðferðar og umræðu. Starfsnefndir þingsins gegna einnig miklu hlutverki þar sem þeim er ætlað að fara yfir öll erindi, kalla eftir umsögnum og taka á móti gestum. Eins hafa allir þingfulltrúar seturétt á fundum nefndanna með málfrelsi og tillögurétt auk þess sem nefndirnar geta ákveðið að fundir þeirra verði opnir almenningi.

Hvaða viðfangsefni verða til umræðu á Stjórnlagaþinginu?

Samkvæmt lögunum verða eftirfarandi viðfangsefni til umræðu:
Undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og helstu grunnhugtök hennar. Skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og valdmörk þeirra. Hlutverk og staða forseta lýðveldisins. Sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvalds. Ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan. Lýðræðislega þátttöku almennings, m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, þar á meðal um frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála. Umhverfismál, þar á meðal um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda. Þjóðfundur getur ákveðið að taka til umfjöllunar fleiri þætti.

Hver greiðir kostnaðinn við Stjórnlagaþing?

Kostnaður við Stjórnlagaþing er greiddur úr ríkissjóði. Forsætisnefnd Stjórnlagaþingsins hefur eftirlit með því að kostnaðurinn við þingið rúmist innan ramma fjárlaga.

Hefur þjóðin efni á að halda Stjórnlagaþing á tímum sem þessum?

Eftir hrun efnahagslífsins var skýr krafa í samfélaginu um að endurskoða þyrfti grunngildi þess og þar með stjórnarskrá landsins. Fólkið krafðist lýðræðisumbóta. Slíkar umbætur kosta hins vegar fjármuni sem þjóðin þarf að vera tilbúin að leggja fram. Þá má ekki gleyma því að góð samstaða náðist á Alþingi þegar lögin um Stjórnlagaþing voru samþykkt 16. júní s.l. um endurskoðun á stjórnarskránni.

Hversu langt verður Stjórnlagaþingið?

Samkvæmt lögunum um Stjórnlagaþingið skal þingið koma saman eigi síðar en 15. febrúar 2011 og ljúka störfum 15. apríl 2011. Þingið getur sjálft ákveðið að ljúka störfum fyrr og jafnframt er því heimilt að óska eftir því við Alþingi að starfstími þingsins verði framlengdur um allt að tveimur mánuðum. Segja má því að væntanlegir frambjóðendur til Stjórnlagaþings þurfi að gera ráð fyrir fjögurra mánaða þinghaldi og gera ráðstafanir í samræmi við það.

Er Stjórnlagaþinginu skylt að fara eftir niðurstöðu þjóðfundarins?

Þjóðfundurinn er undanfari Stjórnlagaþingsins og stjórnlaganefnd mun vinna úr niðurstöðum þjóðfundar og leggja fyrir Stjórnlagaþing. Niðurstöður þjóðfundarins eru þannig fyrst og fremst leiðarvísir um vilja þjóðarinnar fyrir fulltrúa á Stjórnlagaþingi.

Er ekki hætta á að frumvarp Stjórnlagaþingsins breytist í meðferð Alþingis?

Frumvarpið getur breyst í meðförum Alþingis. Hin endurskoðaða stjórnarskrá verður að lúta lagafyrirmælum núgildandi stjórnarskrár og samkvæmt henni hefur Alþingi síðasta orðið í tveimur afgreiðslum með almennum þingkosningum á milli.

Hvað gerir stjórnlaganefndin?

Stjórnlaganefnd var skipuð á fundi Alþingis þann 16. júní 2010 um leið og lög um Stjórnlagaþing höfðu verið samþykkt. Nefndinni er ætlað að undirbúa og standa að þjóðfundi um stjórnarskrármálefni, vinna úr upplýsingum og afhenda Stjórnlagaþingi.
Nefndin skal jafnframt annast söfnun og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna og upplýsinga um stjórnarskrármálefni sem nýst geta Stjórnlagaþingi og enn fremur leggja fram hugmyndir til Stjórnlagaþings um breytingar á stjórnarskrá.

Hvað gerir undirbúningsnefndin?

Þriggja manna undirbúningsnefnd er ætlað að undirbúa stofnun og starfsemi Stjórnlagaþings ásamt undirbúningi þjóðfundarins. Þá er undirbúningsnefndinni ætlað að undirbúa kynningu á starfsemi þingsins, setja upp vefsíðu þess, útvega húsnæði og undirbúa ráðningu starfsmanna þingsins.