Um Stjórnlagaþing 2011

Hvað er Stjórnlagaþing?

Hugtakið stjórnlagaþing er ekki fastmótað en eins og nafnið gefur til kynna er það hlutverk þess að semja nýja eða breyta eldri stjórnarskrá ríkis. Á Stjórnlagaþingi sitja venjulega þjóðkjörnir fulltrúar. Slík þing hafa verið haldin víða um heim á ýmsum tímum og þau marka gjarnan upphaf að stofnun nýrra ríkja eða nýrra stjórnarhátta í ríki í kjölfar stríðsátaka, byltinga eða niðurbrots í þjóðfélagsskipan.

Stjórnlagaþing hvílir á þeim meginstoðum hvers lýðræðisþjóðfélags að allt vald komi frá þjóðinni og því skuli stjórnlög sett af fulltrúum fólksins. Þjóðkjörnum fulltrúum er falið að setja grundvallarreglur um æðstu stjórn og skipulag ríkisins, uppsprettu ríkisvalds, verkefni handhafa ríkisvaldsins, verkaskiptingu þeirra og valdmörk.

Lögin um Stjórnlagaþing

Samkvæmt lögum nr. 90/2010 sem sett voru á Alþingi 16. júní sl. skal ráðgefandi Stjórnlagaþing koma saman til að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. 522 buðu sig fram til Stjórnlagaþings en kosning til þess fór fram 27. nóvember 2010. 25 voru kjörnir en samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar frá 25. janúar 2011 var kosningin dæmd ógild. Þinginu var ætlað að undirbúa frumvarp að endurbættri stjórnarskrá og hafa til hliðsjónar við þá vinnu niðurstöður Þjóðfundar 2010.

Undirbúningur frá því lög tóku gildi

Í lögum um Stjórnlagaþing nr. 90/2010 sem Alþingi setti 16. júní s.l. er kveðið á um skipan tveggja nefnda. Þriggja manna undirbúningsnefnd Stjórnlagaþings er ætlað að undirbúa stofnun og starfsemi þingsins ásamt undirbúningi þjóðfundar. Þá á nefndin að ráða framkvæmdastjóra. Nefndin á enn fremur að undirbúa kynningu á starfsemi þingsins og setja upp vefsíðu þess, útvega húsnæði og undirbúa ráðningu starfsmanna þingsins. Loks skal hún hefja gagnaöflun til undirbúnings fyrir tillögugerð Stjórnlagaþings.

Sjö manna sjálfstæð stjórnlaganefnd var kosin af Alþingi og skal hún annast söfnun og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna og upplýsinga um stjórnarskrármálefni sem nýst geta Stjórnlagaþingi. Nefndin skal einnig undirbúa og standa að þjóðfundi um stjórnarskrármálefni, vinna úr upplýsingum sem safnast á þjóðfundi og afhenda Stjórnlagaþingi þegar það kemur saman. Enn fremur skal stjórnlaganefnd leggja fram hugmyndir til Stjórnlagaþings um breytingar á stjórnarskrá.

Nefndirnar tvær til undirbúnings Stjórnlagaþings

Undirbúningsnefnd stjórnlagaþings

Undirbúningsnefndin var skipuð af forsætisnefnd Alþings og er ætlað að undirbúa stofnun og starfsemi stjórnlagaþings ásamt undirbúningi þjóðfundarins. Þá er undirbúningsnefndinni ætlað að undirbúa kynningu á starfsemi þingsins, setja upp vefsíðu þess, útvega húsnæði og undirbúa ráðningu starfsmanna þingsins.

Undirbúningsnefndina skipa:

Skrifstofa stjórnlagaþings og nefndarinnar er til húsa í Ofanleiti 2 (fyrrum húsnæði HR. Sími: 422-4400. Netfang nefndarinnar er: undirbuningsnefnd@stjornlagathing.is, skrifstofunnar: skrifstofa@stjornlagathing.is, og framkvæmdastjóra: thorsteinn@stjornlagathing.is

Stjórnlaganefnd

Stjórnlaganefnd var skipuð á fundi Alþingis 16. júní 2010 samtímis því að lögin um stjórnlagaþing voru samþykkt. Nefndin annast söfnun og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna og upplýsinga um stjórnarskrármálefni sem nýst geta Stjórnlagaþingi. Nefndin undirbjó og stóð að þjóðfundi um stjórnarskrármálefni,hún vinnur úr upplýsingum sem safnast á þjóðfundi og afhendir Stjórnlagaþingi þegar það kemur saman. Enn fremur skal stjórnlaganefnd leggja fram hugmyndir til Stjórnlagaþings um breytingar á stjórnarskrá.

Stjórnlaganefnd skipa:

Skrifstofa stjórnlagaþings og nefndarinnar er til húsa í Ofanleiti 2 (fyrrum húsnæði HR). Sími: 422-4400. netfang nefndarinnar er stjornlaganefnd@stjornlagathing.is og skrifstofunnar: skrifstofa@stjornlagathing.is

Starfsfólk

Skrifstofa Stjórnlagaþings og nefndarinnar er til húsa í Ofanleiti 2 (fyrrum húsnæði HR. Sími: 422-4400.

Merki Stjórnlagaþings

Hér má hlaða niður ZIP skrá með merki Stjórnlagaþings á PDF og JPG formi

Merki stjórnlagaþings